Þegar Sellátrahúsið varð gult
Þegar Sellátrahúsið varð gult.
Um Páskana 2008 var mér boðið til Sellátra af Benedikt syni mínum. Ég þáði boðið og dvaldi á Sellátrum alla Páskahelgina. Þá skoðaði ég ástand hússins, sem var orðið nokkuð bágborið. Sprungur í veggjum sem raki leitaði í og var farinn að mynda útfellingar á múrhúð að innanverðu. Steypustykki laus að utanverðu vegna ryðgaðs steypustyrktarjárns og sumstaðar höfðu slík stykki hreinlega dottið og járnið bert í veðrið. Gluggakarmar rennandi blautir að innanverðu og fúkkalykt ráðandi í húsinu. Þá ákvað ég að prófa ný- markaðssetta málningu frá Suður Afríku á húsið. Það sem síðustu tilraun, áður en að það yrði að klæða húsið að utan.
Þannig háttaði til að eftir Páskana var sjálfur uppfyndingamaðurinn frá Suður Afríku staddur hér á landi, og ég óð beint í hann. Fræddist um málninguna og varð ennú ákveðnari í að láta á hana reyna.
Málið var bara að ég var skít-blankur og þorði ekki að panta eitt né neitt, án þess að sjá fyrir mér borgunaröguleika. Svo kom tækifærið.
Örn hjá Húsvernd, sem framleiðir málninguna hér á landi, bað mig að fara með þjóðverja og einingahús frá Svíþjóð, upp að Álftavatni við svo kallaðan Laugaveg, og stjórna uppsettningu á því húsi. Þjóðverjarnir áttu að vinna við uppsettninguna líka.
Ég samdi þannig við Örn að ég fengi málninguna og málarameistara með mér, gegn þessari vinnu minni við Álftavatn. Það var samþykkt.
Sjö vikum síðar var allt klárt fyrir vesturferð.
Cris uppfyndingamaður tók að sér að tala við Frans Kok, málarameistara frá Suður Afríku sem staddur var í London, þar sem hann hélt fyrirlestur um spiritisma. “Viltu koma til Íslands og mála hús með okkar málningu Frans”, spyr Cris. “Hvar er það hús og fyrir hvern væri ég að mála það”? Spyr Frans. Cris svarar spurningunni og nefnir mig sem þann sem Frans myndi vinna fyrir. “Yes, I accept and I’ll fly to Iceland as soon as possible”, svarar þá Frans.
Haft var samband við systurnar mínar og þær beðnar að velja lit á húsið, sem þær gerðu fljótt og vel. Kolbeinn Pétursson útvegaði visum fyrir Frans, Örn blandaði málninguna og Silla fixaði 100 þúsundkall úr sjóðum Sellátra fyrir kostnaðarsamri ferð sem í vændum var.
Mánudagsmorguninn sem lagt var af stað var bíllinn hlaðinn með málningu og hafurtaskinu hans Frans, síðan setur Frans sig í bílinn og segir við mig: Láttu þér ekki detta í hug að ég sé hér án ástæðu. Ók segi ég þá og ek af stað. Frans er lítill maður vexti, þéttur og sterklegur, tæplega sjötugur.
Hann dró derhúfu niður yfir andlitið og virtist hálf-dotta alla leiðina til Patreksfjarðar. Sagði ekkert og ég reyndi ekki heldur að yrða á hann. Á Patreksfirði fengum við lánaða lyftu, sem við ætluðum að nota við málningarvinnuna. Ægilegt bákn, svo þungt að ég varð að hafa bílinn í öllum drifum til að roga þessu úr stað. Þessa stuttu ferð frá Patró og að Sellátrum, drakk bíllinn nánast jafn mikið eldsneyti og alla leiðina að sunnan.
Þegar til Sellátra var komið fékk Frans loksins málið. “Þú ert hræddur hérna”, segir hann við mig. “Já, ég er skíthræddur hérna”, svara ég. “Við tökum það á morgun”, segir Frans. Svo þegar inn var komið spyr Frans hvort mér sé sama um að hann sofi í rúmi móður minnar! Ég varð hvumsa við, en hiksta út úr mér að auðvitað væri mér sama um það. Þá sjáumst við á morgun segir Frans og fór rakleiðis uppá loft og lagði sig í rúmið hennar mömmu.
Málið var að enginn hafði sagt honum frá því að mín mamma hefði yfir höfuð búið á Sellátrum, og því síður hvar rúmið hennar væri.
Ég svaf órótt um nóttina og fór á fætur fyrir kl 06. Ég læddist um húsið og gerði kláran morgunverð fyrir karlinn og vakti hann síðan um hálf átta leytið. Hann var endurnærður sagði hann eftir svefninn og tók vel til matar síns. Þann dag var kolvitlaust veður með ausrigningu og stormi. Við holufylltum á skjólsíðunni fram á kvöld. Svo segir Frans að það séu margir með okkur þarna og að við þyrftum að hjálpa þeim.
Hann bað mig að hjálpa sér við að mynda í huganum kúlu fyllta af ljósi og kærleika. Svo að hjálpa sér við að biðja andana þarna að taka við þessari kúlu og ganga mót ljósinu og hverfa til betri heima. Þá nótt sváfum við eina 9-10 tíma!
Daginn eftir var sama stórviðrið en við héldum okkar striki við holufyllinguna fram til kl rúmlega 18 um kvöldið.
Þá útskýrir Frans fyrir mér hverjir hafi verið fyrirferða mestir af öndunum. Hann lýsti Kristjáni Arngrímssyni, eins og mér hafði verið sagt að hann hefði litið út. Eins lýsti hann Ingibjörgu dóttir Kristjáns ansi vel. Hann sagði Kristján hafa verið reiðan vegna sinnuleysis afkomendanna um jörðina. Þá nótt átti ég bágt með svefn vegna verkja í öxlum. Ég fann samt að öll hræðsla í mér var á bak og burt. Ég var kokkur í ferðinni og lagaði til fiskirétt með öllu hugsanlegu grænmeti og sterkum chillisósum í eldfast form, og þvílíkt sem karlinn át. Svo fékk hann pastarétt með kjúklingum, sem við átum í tvo daga.
Morguninn eftir var komið dásemdarveður og við gátum farið að byrja með málninguna. Frans nuddaði á mér axlirnar og við unnum í einum rykk frá 9 til 21.
Sama veður daginn eftir og vinnuharkan alger. Um kvöldið var hringlast í öndunum.
Björgvin Sigurjóns kom færandi hendi með lyftara frá hans fyrirtæki daginn eftir, sem gerði okkur Frans kleyft að klára málningarvinnuna. Eftir að Björgvin hafði verið hjá okkur, sagði Frans að hann (Björgvin) hefði verið fullur af sorg. Ég útskýrði þá fyrir Frans að hann hefði nýlega misst ungan son sinn í krabbameini. Þá vildi Frans endilega heimsækja hann og Sædísi. Það fékkst samþykkt hjá þeim hjónum og þvílík heimsókn. Frans útskýrði fyrir þeim að drengurinn væri á góðum stað og að hann bæði þau um að kenna sér ekki um dauða sinn. Síðan lýsti Frans fyrir þeim hverjir væru verndaraðilar þeirra. Þau þekktu þá lýsingu bæði tvö og stemmdi hún við framliðna ættingja og vini þeirra.
Á laugardagsmorgninum, sem sé daginn eftir, kom síðan Björgvin til að stjórna lyftaranum með Frans í körfu framan á lyftaranum. Allt þakið málað á örskotstundu. Við tókum okkur síðan frí frá hágegi, enda gjörsamlega búnir með kraftana. Ég bauð uppá máltíð á Bíldudal, vegna þess að Hópið var lokað vegna jarðarfarar. Sunnudaginn unnum við eins og berserkir, enda þurfti Björgvin að fá lyftaran aftur fyrir sína menn eftir helgina. Mér tókst þó að væla út úr honum mánudaginn líka. Málið var að lyftan sem við fengum á Patreksfirði reyndist gjörsamlega ónothæf. Það kvöld bauð ég afríkananum uppá bleykjuveislu á Hópinu og síðan pollferð.
Eftir mánudaginn voru einungis gluggar á neðri hæð eftir, en málningin á þrotum. Þakskeggið hafði gleypt alla málninguna, sem ætluð hafði verið á gluggana líka. Vindskeiðarnar voru orðnar svo fúnar að það vantaði heilu stykkin í þær. Ég notaði kítti til að byggja í göt og þar sem vantaði í vindskeiðarnar og málaði síðan yfir með undramálningunni.
Lyftaranum skilað og Björgvin sæll og ánægður með okkur. Þriðudaginn notuðum við til að mála það sem hægt var af gluggunum á neðri hæðinni og þrífa síðan tól og tæki og taka saman eftir okkur mesta ruslið. Um hádegið var lagt af stað með lyftuna í eftirdragi, þá var ég svo slæmur í öxlunum að ég varð að hafa hendurnar á lærunum og halda um stýrið með fingrunum og mjólka það nokkra sentimetra í einu með þeim, án þess að lyfta höndunum. Eftir að við losnuðum við lyftuna á Patró, fengum við lánaða skrifstofuna í matvörubúðinni til að Frans gæti nuddað á mér axlirnar.
Þegar við gengum þar inn, ég á undan og Frans á eftir með ilmolíuflösku dinglandi í hendinni, inná skrifstofu og lokuðum á eftir okkur, stóð viðskiptavinum verlunarinnar ekki á sama. Þarna inni vorum við síðan í hæfilega langan tíma til að allt hefði getað gerst, og þvílíkar augngotur sem við fengum, þegar við gengum út sömu leið og með sama hætti, allt svo Frans á eftir með bannsetta olíuflöskuna dinglandi í annarri hendinniJ
Nema hvað að mér snarbatnaði í öxlunum og við átum silung á veitingastaðnum Þorpinu, áður en að lagt var í hann suður.
Þannig atvikaðist það að húsið á Sellátrum varð gult, bjart og fallegt. Ekki nóg með það, heldur varð það líka þétt og fúkkalyktin horfin. Þó er því ekki að neita að okkur hefur mislánast á nokkrum stöðum að hefta ryð á bindivírum og steypustyrktarjárnum. Ekki mörgum stöðum þó og því ekki svo hrikalegt að laga þetta.
Selfossi 8. júlí 09
Hreggviður Davíðsson.
Guðjón Björnsson | laugardagurinn 4. mars 2017
Athugasemdir
Russell And Bromley Outlet, þriðjudagur 22 október kl: 02:48
Málið var að enginn hafði sagt honum frá þvà að mÃn mamma hefði yfir höfuð búið á Sellátrum, og þvà sÃður hvar rúmið hennar væri.
jewelry, þriðjudagur 13 nóvember kl: 02:54
Þegar Sellátrahúsið varð gult