Myndir og minningar
Myndir og minningar.
Einn afkomandinn frá Sellátrum í Tálknafirði átti stórafmæli í vændum, en hvernig átti að gleðja viðkomandi og helst koma á óvart líka? Það komu margar hugmyndir til greina, en sú sem varð að veruleika reyndist bæði vera ósnertanleg og líka jafnt fyrir alla ættingja afmælisbarnsins, “heimasíða,, Í tilefni af 40 þúsund heimsóknum á heimasíðuna frá opnun hennar, langar okkur að benda öðrum á þennan möguleika til að varðveita myndir og minningar, til dæmis úr sveitinni.
Tilraun til að varðveita myndir og minningar.
Það er af sem áður var þegar meirihluti landsmanna áttu heima í sveit. Þessi þróun er ekki sér Íslensk, þetta er svona á heimsvísu. Það sem fólk hefur nær undantekningarlaust með sér þegar það flytur úr sveitinn, eru myndir og minningar. En smátt og smátt gleymast og týnast myndir, gamla fólkið sem man fellur frá, myndir og mynda albúm lenda í pappakössum, löngu seinna finnast hugsanlega þessar myndir en þá veit sennilega enginn af hverjum þessar myndir eru, enda ólíklegt að þær séu dagsettar eða merktar.
Fyrir utan það að kalla þetta afmælisgjöf, var ástæðan fyrir því að við ákváðum að setja upp þessa síðu að gera tilraun til að varðveita myndir og minningar fólksins frá Sellátrum í Tálknafirði, eftir því sem hægt væri og sporna við að heimildir færu forgörðum.
Bjarga heimildum á elleftu stundu.
Fyrirfram höfðum við ekki hugmynd um hvort þetta væri raunhæft og óvíst að nokkur mundi sýna þessu uppátæki áhuga, þess vegna settum við teljara á síðuna, okkur fannst nauðsinlegt að fylgjast með hvort einhver hefði áhuga á síðunni, enda var hún eiginlega eingöngu hugsuð fyri nánustu ættingja. Fyrst voru örfáar heimsóknir í viku hverri, en smátt og smátt jukust heimsóknir, sem var auðvitað hvatning fyrir okkur til að setja inn meira, bæði gamalt og nýtt efni sem tengdist Sellátrum og nágrenni. Það hefur ítrekað komið fyrir að okkur hefur tekist að bjarga heimildum á elleftu stundu. Á síðunni eru sem dæmi, hljóðupptökur eftir löngu dáið fólk og sjónvarpsviðtal við síðasta ábúandann á Sellátrum sem einnig er fallinn frá. En svo er auðvitað margt að falla í gleymskunnar dá, eins og nöfn á kennileitum. Það hefur komið okkur á óvart að alltaf fellur okkur til efni til að setja inn, einnig það sem skeður í nútímanum svo sem, fermingar og skírnir.
Heimsóknir yfir 100 á dag þegar best blæs.
Nú liggur fyrir hjá okkur að merkja mikið af myndum sem við höfum bjargað í hús. Langar að nefan mynd af þriggja ára stúlku sem nú er á níræðisaldri, einnig eru myndir af foreldrum hennar og afa og ömmu á síðunni. Þá höfum við orðið vör við að sóttar eru heimildir í síðuna til að koma í annað form svo sem bækur, og erum við afar stolt af því. Það var kannað í upphafi að koma þessari hugmynd inn á Facebook eða sambærilegt form, það er sjálfsagt ágætis möguleiki, en okkur fannst heimasíða hentaði okkur betur, en aðalatriðið er auðvitað að koma þessu í verk ef áhugi er fyrir hendi. Sjaldan líður meira en mánuður án þess að eitthvað komi inn á síðuna, þá er gaman að sjá hvernig teljarinn tekur við sér, og fara þá heimsóknir yfir 100 á dag þegar best blæs. Við höfum samt aldrei sett inn greinar til þess beinlínis að auka aðsókn. Það hefur aðeins færst í vöxt að við fáum aðsent efni sem gerir síðuna fjölbreyttari. Allir geta sent okkur efni, gamalt eða nýtt til að setja inn á síðuna það er vel þegið, eina skilyrðið er að efnið tengist Sellátrum með einhverjum hætti. Hægt að hafa samband við hans@internet.is gaui@danskur.dk
Eins og skilja má að framansögðu, þá er þetta áhugamál og vilji til að varveita heimildir, gamlar og nýjar, einnig er óhætt að segja að þetta hafi tilfinningalegt gildi. Virkasta svæði heimasíðunnar er Fréttir/greinar sem birtist þegar síðan er opnuð.
Við sem höfum séð um síðuna frá upphafi erum bæði fædd fyri miðja síðustu öld, svo ef við getum þetta, þá geta það örugglega allir. Þess skal þó getið að við höfum fengið margskonar aðstoð við þessa síðu. Ef spurningar vakna við lestur þessarar greinar, eins og hver átti þetta stórafmæli sem minnst var á í upphafi, þá finnast sennilega svör við því á heimasíðunni. Auðvelt er að komast inn á Sellátrasíðuna með því að gúggla Sellátra. En slóðin í heild er www.sellatrar.vefvistun.net. www.sellátrar.is , www.sellatrar.is
Hans Óli og Ólöf.
Guðjón Björnsson | sunnudagurinn 5. mars 2017