Gamli bærinn á Sellátrum

Gamli bærinn á Sellátrum.

Mitt minni nær til bæjarins eftir að byggt var við hann til suðvesturs af Kristni nokkrum, sem ég veit engin skil á.

Bærinn var timburhús á einni hæð en með lágum portveggjum og ca 45 gráðu risi. Viðbyggingin var með skúrþaki sem fest var við bæinn ca 20 cm neðan við þak hans. Við austur enda hússins var viðbyggð geymsla og við hluta norðurhliðar hússins og vestur fyrir hús hornið, var viðbyggt svo kallað svínahús. Það hús var með torf- og steinahleðslu upp að sperrum á norðurhlið, en lækkaði á göflum niður í ca 80 cm háar hleðslur. Ofan á hleðsluveggi komu svo timburveggir með gluggum í báðum göflum (60x40 cm) og stafninn til suðvesturs, sem einungis var rúmur meter og stakk út fyrir hús hornið, hafði að geyma inngangshurðina.

Á viðbyggingunni (Kristinsbænum) voru góðir og nokkuð stórir gluggar. Til suðurs voru þrír gluggar, tveir þeirra sem næstir voru innganginum voru ca 70x60 cm en sá er var í horninu suður-vestur var vel yfir meter á kannt með tveim standandi póstum og einum láréttum. Á vesturhlið Kristinsbæjarins var svo samskonar gluggi á horninu vestur-suður og áður er lýst og komu þeir saman í horninu, síðan kom annar gluggi á gaflinum, 40 cm á breidd og metri á hæð. Sá gluggi var staðsettur ca einum og hálfum metrum frá samsettningu húsanna.

Geymslan var með einn glugga til austurs, ca 60 cm á breidd og 50 cm á hæð.

Gluggar sjálfs bæjarhússins voru: Á norður hlið, einn fyrir miðju hússins (eldhúsglugginn) ca 70 cm á breidd og svipað á hæð. Á austur hlið voru tveir, annar á neðri hæð og hinn í risgaflinum – þeir voru svipaðir að gerð með einum lóðréttum pósti, ca 80 cm á breidd og kannske metri á hæð. Vesturgaflinn var með sama hætti og sá austari, nema að þar var jarðvegurinn í gólfhæð en ca 50 cm uppá austurgaflinn sem og á norðurhliðinni. Auk þess var steyptur veggur utan á veggnum á vesturgaflinum, sem náði frá húshorni að norðan og að Kristinsbænum til suðurs, á hæðina náði hann upp undir neðri glugga gaflsins. Til suðurs var einungis lítill gluggi í kvisti í risinu 40x40 cm, enda viðbyggingin meðfram allri þeirri hlið. Öll húsin utan svínahúsið voru pappaklædd utan á timburklæðningu og bárujárn á öllum þökum. Útihurðin var u.þ.b. metri á breidd og tveir á hæð, timburhleri  með einfaldri klæðningu og z grind. Henni var lokað með timburspennu og hún var hægri lömuð.

Þegar inn var komið var nokkuð rúmgóð forstofa, eilítið niður grafið gólf með möl sem gólfefni. Pallur úr timbri var milli hurðar inn í Kristinsbæinn og hurðarinnar á móti, sem tilheyrði geymslunni og náði hann inn í enda forstofunnar. Ég gæti trúað að forstofan hafi verið um hálfur annar metri á breidd og 3,5 metrar á lengd. Mig vantar öruggt minni um hvað var í enda forstofunnar, en mig minnir að þar hafi verið fatasnagar og pláss fyrir skótau af ýmsu tagi (kannske líka ílát fyrir þurrmat). Þegar inn í geymsluna kom, þá var þar borð eftir austurhliðinni, sem á voru skilvindur og annað slíkt. Hyllur voru þar sem hægt var að koma þeim fyrir, þar sem sulta, saft, niðursuðuvörur og annað slíkt var geymt. Af pallinum í forstofu og upp í hurðina á geymslunni var ca 40 cm hæðamunur og því trappa í líkingu trékassa framan við dyrnar. Geymslan var óþiljuð en með trégólfi og trúlega 2,5 m á breidd og tveir á dýpt.

Úr forstofunni og inn í Kristinsbæinn var örlítill hæðamunur en þar var timburgólf og allir veggir þiljaðir. Vinstra megin eftir að inn var komið var súrtunnan, síðan langborð meðfram suðurvegg. Á því borði voru lundabaggarnir pressaðir og viðlíka starfsemi viðhöfð. Á veggnum til vesturs voru dyr inn í það sem kallað var „fyrir innan hærurnar“. Sú nafnbót kom til af gerð hurðarinnar, sem var klædd með strigahærum á tréramma. Síðan stóð myndarlegur suðupottur í horninu sem vísaði inn að bænum og við hlið hans þvottavél ljósgul með topphlemm. Því næst kom hurðin inn í sjálfan bæinn, en í horninu austan við hurðina höfðu hundarnir sitt bæli. Þessi svokallaði Kristinsbær var ca 3,5x4 metrar að flatarmáli. Nú förum við næst inn fyrir hærurnar.  Það var hluti af Kristinsbænum en sá hluti var notaður sem geymsla og verkstæði. Strax og inn var komið var staflað frá gólfi og í loft, þó á hyllum, hinu ýmsa dóti m.a. jólaskrauti og á enda hyllnanna áður en verkstæðið tók við, var sykur af öllum gerðum geymdur. Undir suðurglugganum var borð fyrir handverk tilheyrandi verkstæðinu, það borð gekk síðan eftir vesturveggnum (gaflinum) til hálfs að meðtöldum hefilbekk staðsettum við enda þess. Á því borði var smergel og og fleira í þeim dúr. Undir því voru hyllur hlaðnar ýmsu dóti tilheyrandi verkstæðinu. Hyllur voru við enda litla gluggans sem náðu yfir allan vegginn út í horn, hlaðnar af verkfærum og einnig voru handverkfæri hengd á nagla í löngum röðum yfir borðinu og hefilbekknum. Eins var þar að finna efni til smíðanna. Þær hyllur huldu síðan vegginn sem snéri að bænum, flestar með efni til smíðanna en einnig hlutum tilheyrandi húshaldinu, ásamt bókasafni all nokkru. Við dyravegginn var síðan hár skápur með hurð, þar var kindabyssan geymd ásamt öðru sem ekki var ætlað ungviði heimilisins. Þessi húsakynni gætu hafa verið 3,5 metrar á breidd og 4,5 á lengd.

Hæðarmunur frá Kristinsbænum og inn í sjálfan bæinn var ca 20 cm niður á við. Þar tók við borðstofan. Allt bæjarhúsið var þiljað og með timburgólfum. Gengt innganginum var klósett byggt undir stigan upp á loftið, sem var í 90 gráðu beygju og klósettið undir þar sem stiginn teygði sig inn á loftið. Hurðin inn í borðstofuna var við millivegginn sem skildi að eldhúsið frá borðstofunni. Hurðin var fulningahurð með fjórum fullningum, þær efri með smá sprungum sem við krakkarnir höfðum stækkað til að sjá í gegnum. Framan við uppganginn í stigan var skápur með tveim hurðum, sem náði frá gólfi og í loft, í honum voru geymd sængurföt og annað tau. Hann snéri bakinu að austurgaflinum. Undir glugganum var síðan matborðið fyrir gaflinum. Trébekkur var innan við borðið en lítill bekkur með fóðraðri setu við enda borðsins gengt skápnum. Við endann sem snéri að skápnum var stóll, sem staðsettur var þó framan við skápinn. Yfir litla bekknum var síminn hengdur á vegginn. Framan við borðið var svo annar bekkur.  Flatarmál þessa herbergis að meðtöldu klósetti, gæti hafa verið 4x4 metrar.

Hurðin inn í eldhúsið var ca meter inn frá milliveggnum til Kristinsbæjarins og hurðin áfram inn í stofuna beint á móti. Vinstra megin er inn kom var borð meðfram öllum veggnum. Ofan á því voru skápar í báðum hornum og undir því skápar. Svo hurðin til stofunnar og við hlið hennar eldavélin, síðan hitatúpan og þá var komið að gluggaveggnum. Hann var einungis með hornskáp sem snéri að borðstofuveggnum. Neðri skápurinn með vaski og síðan yfirskápur sem ég man ekki hvað innihélt. Mig minnir að lítið borð hafi verið milli vasks og hurðar. Eldhúsið gæti hafa verið 1,8 metrar x breidd bæjarins ca 4 metrar.

Stofan var með fallegum skenk upp við vegginn milli eldhúss og stofu. Hann var með látúns klæddum hornum og rósettum við höldur og skráargöt, í dökkum lit og stíflakkaður. Yfir skenknum hékk svo klukka heimilisins, sú sama og er á Sellátrum núna.  Að mig minnir var stóll í horninu og síðan sófi, sem breytt var í tvíbreitt rúm um nætur.  Að öllu jöfnu stóð vefstóll uppi í stofunni og við vegginn gengt sófanum lítið rúm. Þegar vefstóllinn var ekki í stofunni, minnir mig að tveir stólar hafi verið andspænis sófanum. Stofan gat hafa verið ca 4,2 m á lengd x breidd hússins, ca 4 metrar.

Stiginn upp á loft var; eins og áður sagði; snúinn í 90 gráður úr tré með handlista með veggnum. Yfir honum var tréhleri á lömum, sem opnaðist upp að súðinni á loftinu. Þegar upp var komið kom maður uppá svokallað miðloft. Gólfflötur þess u.þ.b. 4x4 metrar en súðin gekk ansi langt niður, enda portveggir kannske 65 cm háir. Gengt stiganum var rúm undir súðinni og að mig minnir saumavél við vegginn neðan við hurðina inn í innri endann sem kallaður var, sem sé herbergi í endanum til austurs. Undir kvistinum var síðan annað rúm sem snéri fótagafli að hinu gegnt stiganum. Framan við það rúm voru upphengdir tveir fataskápar gerðir úr plasti, þar sem fínu fötin voru hengd á herðatré. Þeir mynduðu nokkurs konar skilrúm framan við rúmið, sem varð þar með mest prívat þarna á miðloftinu. Svo kom hurðin inn í ytri endann, herbergi  í vestari enda. Svo annað nokkuð breitt rúm milli ytri enda og hlerans.

Ytri endinn var herbergi ca 3 metrar á lengd og breidd hússins 4 metrar. Þar inni var tvíbreitt rúm, borð og stundum einbreitt undir hinni súðinni.

Innri endinn var jafn stór þeim ytri og lengst af líka með tvíbreytt rúm og borði og að mig minnir skáp. Seinna varð herbergið að skrifstofu.

 

Þetta er samkvæmt mínu besta minni en það getur verið götótt, þess vegna væri gaman að fá bæði betri og ítarlegri frásagnir frá fólki, sem man þetta betur.

 

Skrifað á Selfossi 29. Júní 2011.
Hreggviður  Davíðsson.