Það er mér mikil ánægja að setja niður nokkrar línur til að tilkynna um opnun heimasíðu fyrir Sellátur. Eigendur Sellátranna eru margir, 11 talsins, dreifðir um allt land. Það er því mikið hagræði að því að geta fundið nýjustu upplýsingar um það sem er að gerast á Sellátrum á einum stað. Hér getum við safnað saman því sem við teljum markvert og að eigi erindi til hópsins, með afkomendum, mága- og tengdafólki. Til er mikill fróðleikur um jörðina og væri gaman að þeir sem hafa aðgang að honum leyfi okkur öllum að njóta á þessari síðu. Ættir hafa verið raktar, saga jarðarinnar skrifuð, myndir teknar, ljóð ort, og svo mætti lengi telja.  Smátt og smátt gætum við tekið þetta saman og haft á einum stað. Svo er líka alltaf hagleiksfólk að störfum af og til við að dytta að og lagfæra, þetta væri líka gaman að vita um.

Það er viðeigandi að síðan sé opnuð í dag, 18. júlí 2009, á sjötugsafmæli Ólafar. Að öðru Sellátrafólki ólöstuðu á hún drýgstan þátt í því að þessi hugmynd er að verða að veruleika, ekki síst vegna þess að hún nýtur við verkið aðstoðar Hans Óla Hanssonar, sem er henni viðkomandi. Fyrir hönd annars Sellátrafólks þökkum við þeim þetta ágæta framtak. Megum við öll lengi njóta.

 

Sigurlína Davíðsdóttir .